Lærdómur í hversdagsleikanum
Nokkrum dögum fyrir afmælisdag sonar míns kíkti maðurinn minn á veðurspána. Spáð var góðu veðri á afmælisdaginn svo við drifum okkur í að senda út boð í grillveislu sem halda átti á fallegu útisvæði í Kópavogi. Á afmælisdaginn settist ég svo undir stýri, feðgarnir voru í góðum fíling, voru að spjalla, enda mikið tilhlökkunarefni að eiga afmæli. Ég var hins vegar frekar utan við mig. Ég setti í bakkgír og steig varlega á bensíngjöfina.
Heyrði bílinn öskra á mig „bíb bíb bíb“ en náði ekki að stoppa í tæka tíð og bakkaði á bíl nágranna míns.
Viðbragðið mitt var að hugsa: „Bíddu, bíb hljóðið kom svo seint í bílnum að ég náði ekki að stoppa“. Með þessari hugsun var ég að afsala mér ábyrgð. Ég ákvað þó að spyrja feðgana hvort bíb hljóðið hefði komið seint eða hvort þetta hefðu verið sein viðbrögð hjá mér. Þeir svöruðu báðir að ég hefði verið sein að bregðast við.
Viðbragð mannsins míns var rólegt: „Þetta getur alltaf komið fyrir“.
Viðbragð sonar míns var að verja mig: „Þessi bíll átti ekki að vera þarna . . . hann er svo stór . . . mamma þetta er allt í lagi þetta var ekki þér að kenna“.
Þarna var sonur minn að verja mig og vildi koma ábyrgðinni af mér. Ég náði að svara honum rólega: „Veistu, þetta var mér að kenna og það er allt í lagi“. Ég sýndi honum skilning og þakkaði fyrir að hann hafi viljað vernda mig. Sagði honum að þetta voru mín mistök og að ég tæki ábyrgðina. Í framhaldi hringdum við þau símtöl sem við þurftum og héldum svo áfram för okkar í afmælisveisluna.
Áþessari stundu tókst mér að grípa kennslustund í hversdagsleikanum. Kennslustundin var mikilvægi þess að taka ábyrgð, þakka fyrir stuðninginn og vera fyrirmynd í því sem við getum. Ég gat ekki breytt því að ég keyrði á en ég gat verið fyrirmynd í því hvernig ég tókst á við það.
Þar sem ég hef komið því í vana að skoða tilfinningaviðbrögð mín við aðstæðum, þá varð það til þess að ég náði að bregðast meðvitað við og gat nýtt þessa reynslu sem kennslustund. Þegar ég gaf mér svo tíma til að ígrunda viðbrögð mín og feðganna þá áttaði ég mig betur á því hversu svipuð varnarviðbrögð áttu sér stað hjá okkur mæðginunum. Tekst mér það alltaf? Alls ekki. En með því að skoða samskipti okkar og viðbrögð okkar við þeim aukum við skilning okkar á sjálfum okkur og þeirri sögu sem við komum með í uppeldishlutverkið. Það hjálpar okkur síðan að eiga fleiri augnablik þar sem við náum að grípa okkur í hversdagsleikanum og læra af reynslunni.
Hver eru varnarviðbrögð þín og hvað getur þú gert til að vera meðvitaðri um þau?
Höfundur Rakel Guðbjörnsdóttir
foreldra- og uppeldisfræðingur
Margir hafa eflaust einhvern tímann heyrt: ,,þú ert farin/nn/ð að líkjast foreldrum þínum” eða hafa hugsað: ,,ég ætla aldrei að gera þetta eða hitt í uppeldi barnanna minna; ég ætla ekki að feta í fótspor foreldra minna og ala börnin mín svona upp”. Hefur þú einhvern tímann velt fyrir þér hvernig þú bregst við áreiti í uppeldi barna þinna? Hefur þú staðið þig að því að sýna ósjálfráð viðbrögð sem minna á viðbrögð foreldra þinna í æsku?
Þegar við ólumst upp vorum við ítrekað í aðstæðum þar sem við fylgdumst með foreldrum okkar bregðast við áreiti eða aðstæðum. Þetta gat til dæmis verið vegna prakkarastrikanna okkar, misgóðra hugmynda sem við vildum koma í framkvæmd eða vegna þess að við komum ekki heim á réttum tíma. Við fylgdumst með því hvernig foreldrar okkur leystu úr deilum sín á milli. Aðstæðurnar voru ótal margar og af mismunandi toga. Í rauninni var alltaf ,,á upptöku” hjá okkur og við meðtókum mikið magn af upplýsingum um samskipti og hegðun á heimilum okkar. Þessar miklu upplýsingar gerðu okkur svo kleift að spá fyrir um hvernig foreldrar okkur myndu bregðast við í ákveðnum aðstæðum.
Til einföldunar þá getum við ímyndað okkur að við séum að leggja leikrit á minnið. Við verjum æskunni í að læra á og kynnast sögupersónunum sem koma þar fram og hlutverkum þeirra. Við fáum langan tíma til þess að læra hlutverkin, atriðin eru síendurtekin sem verður til þess að við verðum þaulæfð. Í rauninni svo vel æfð að við innleiðum sögupersónurnar í líf okkar, við verðum þessar persónur að einhverju leyti. Með hækkandi aldri fækkar aðstæðum á heimilinu sem við verðum vitni að, við flytjum út af heimilum foreldra okkar og verðum sjálfstæðir einstaklingar. Leikritið hefur áfram áhrif á líf okkar en sögupersónurnar geta legið í dvala. Jafnvel árum saman.
Svo kemur að því að við eignumst sjálf börn. Óvissa fylgir því að fá barn í hendurnar og til að byrja með vita líklega fæstir hvernig þeir eiga að takast á við þessar nýju og óþekktu aðstæður. Af stað fer nýtt leikrit og við þurfum að finna hlutverk okkar innan þess. Og hvað gerist? Mögulega spólum við til baka í huganum, dustum rykið af sögupersónunum, foreldrum okkar, sem við lærðum svo mikið um á yngri árum. Áður en þú veist af ertu orðin nútímaútgáfa af sögupersónum æskuleikritsins þíns. Ef til vill hefurðu fengið gott uppeldi, leikritið þitt hefur haft jákvæð áhrif á þig sem einstakling og þú vilt halda áfram að skrifa framhald af söguþræðinum þínum. Ef til vill hefði ýmislegt mátt betur fara og þú sem fullorðinn einstaklingur þarft að taka ákvarðanir um hvort að þú viljir halda í gamla söguþráðinn sem þú kannt svo vel eða byrja leikritið aftur frá byrjun.
Ef gera á breytingar eða hefja nýtt leikrit þarf foreldrið virkilega að hafa fyrir því að skrifa nýjan söguþráð. Þráð sem fylgir eigin gildum og lífsviðhorfum. Spyrja þarf hvernig foreldri maður vill vera, hvað skal tileinka sér í uppeldi barna sinna og vinna statt og stöðugt í því að uppfæra hlutverkin í uppeldisleikritinu.
Ekkert foreldri er fullkomið en flestir eru að reyna sitt besta. Við getum ekki breytt fortíðinni eða uppeldinu sem við fengum en við getum staldrað við og litið inn á við. Við getum velt því fyrir okkur hvernig foreldrar við viljum vera og hvernig við getum verið enn betri útgáfa af okkur í hlutverkinu sem við leikum núna. Það er aldrei of seint að hefja breytingar á söguþræðinum í uppeldisleikritinu sem börnin okkar taka með sér út í lífið.
Hvað einkennir sögupersónurnar sem börnin þín eru að leggja á minnið núna?
Höfundur Hildur Inga Magnadóttir
foreldra- og uppeldisráðgjafi hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni.
Hvernig hafa viðhorf okkar uppalenda áhrif á barnauppeldi?
Uppeldi er breytilegt lífstíðarferli þar sem hvert þroskastig býður upp á ný tækifæri og aukinn þroska fyrir bæði foreldri og barn. Það er mikilvægt að skoða tilfinningalíðan og viðbrögð foreldra uppeldishlutverkinu því samspil er á milli vaxtar foreldris sem uppalanda og aukinn skilnings á þörfum barns.
Miklar breytingar hafa orðið á uppeldishlutverkinu í kjölfarið af snjallvæðingunni og þeim hraða sem einkennir samfélagið í dag. Hraðinn og þær freistingar sem fylgja honum koma úr öllum áttum og fanga athygli barna, unglinga og fullorðinna. Það getur haft þau áhrif að fólk fjarlægist sjálfan sig og fer að taka þátt í flæði samfélagsins, sem setur einstakling í áhættu að aftengjast eigin kjarnasjálfi og detta inn í vanaferli. Þeirri hættu getur fylgt að einstaklingurinn verður aukapersóna í lífi annarra og í samfélaginu frekar en að vera aðalpersóna í eigin lífi.
Það getur því verið krefjandi að finna jafnvægi þegar fólk hættir að bera eingöngu ábyrgð á sjálfum sér og athyglin beinist að ósjálfstæðum einstaklingi sem foreldri ber alfarið ábyrgð á. Foreldrar standa því frammi fyrir nýjum áskorunum sem hafa víðtæk áhrif á líf þess. Það er því ljóst að þó foreldri telji sig vel undirbúið fyrir foreldrahlutverkið þá breytist vitund þeirra þegar þeir bera alfarið ábyrgð á nýju lífi. Foreldrar finna sig í aðstæðum sem getur reynt á allar taugar í líkamanum, mikil streita, svefnleysi og foreldrar átta sig oft á tímum ekki alveg strax á því hversu mikið athyglin fer frá öllu því sem þau eru vön til að sinna ósjálfbjarga einstaklingi.
Foreldrahlutverkið reynir á þolmörk sem aldrei fyrr, reiði, pirringur, særindi og allar þær tilfinningasveiflur sem fylgja. Það er því mikilvægt að foreldrar skoði eigin innri ferli eða tilfinningar, því þar liggja grunnviðhorf og viðbrögð foreldris. Meðvitundin felur því í sér að vera meðvituð um hvernig viðbrögð foreldris hefur áhrif á barnið og hvort þau viðbrögð eru út frá þörfum barnsins eða vanaferlum foreldris. Þegar foreldrar eru meðvitaðir um sjálfan sig þá eru þeir hæfari til að finna jafnvægi í að skapa nægilega mikið svigrúm og öryggi fyrir barnið að þroskast og finna eigin takt í lífinu.
Af hverju er mikilvægt að skilja viðhorf sem uppalandi?
Samskipti foreldris og barns byggja að miklu leyti á viðbragði foreldris við barninu og félagslegum þáttum. Hvernig foreldri bregst við barninu sínu í samskiptum er flókið úrvinnsluferli og felst í hæfni foreldris til að túlka aðstæður sem byggðar eru á fyrri reynslu og flóknum félagslegum þáttum. Þar sem samskipti við barnið geta triggerað foreldrið tilfinningalega, t.d. spurningar barnsins óþægilegar, foreldri finnur fyrir ótta út frá sinni reynslu eða hættum sem gætu skapast. Foreldri er því vís til að bregðast við út frá tilfinningum sem bundnar eru við fyrri reynslu en ekki út frá því sem er að eiga sér stað í samskiptum við barnið sitt. Ástæðan fyrir þessu er að foreldri túlkar aðstæður út frá fyrri atburðum, viðhorfum, skoðunum og væntingum sem geta gefið þeim afbakaðar hugmyndir af því sem raunverulega er að gerast.
Sem dæmi:
Þegar sonur minn var 6 ára fluttum við í sama hverfi og ég bjó í sem barn. Þegar hann bað um að fá að fara einn út að leika þá fann ég að allar frumur í mínum líkama sögðu nei.
Mín hugsun:
Þetta er svo fjölmennt hverfi og það eru hellingur af hættulegum mönnum hér, ég get ekki lofað honum að fara einum út.
Raunverulegar aðstæður:
Þegar ég var á hans aldri bjó ég í þessu hverfi og það var maður sem við vinkonurnar vorum hræddar við. Það sást nokkru sinnum til hans út í glugga með kíkir að fylgjast með okkur að leika.
Hvernig myndi ég bregðast við ef “mín hugsun” fengi að stjórna viðbragði mínu?
Viðhorf og viðbragð 1.
Allar frumur í líkamanum segja nei, þá hlusta ég á það.
Viðhorfið gæti þá verið af því þetta er óþægilegt fyrir mig þá geri ég það ekki þó að ég sé að koma í veg fyrir að hann fari út að leika með sínum vinum.
Hvernig myndi ég svara barninu mínu ef ég gerði mér grein fyrir “mín hugsun” væri óttaviðbragð hjá mér og hefði ekki með það að gera að barnið mitt vildi fara eitt út að leika?
Viðhorf og viðbragð 2.
Allar frumur í líkamanum segja nei, þá þarf ég að skoða það frekar.
Viðhorfið gæti þá verið af því þetta er óþægilegt fyrir mig þá þarf ég að skoða hvað liggur raunverulega að baki þessa tilfinningu svo ég láti ekki mína reynslu eyðileggja fyrir honum ef hún á ekki við.
Þegar ég gaf mér rými og hugsaði þetta rökrétt áttaði ég mig á því að sonur minn er 6 ára og full fær um að fara einn út að leika. Óttinn minn tengdist því ekki að lofa honum að fara einum út að leika eða helling af hættulegum mönnum heldur þennan eina mann sem ég hafði verið hrædd við þegar ég var barn. Þarna voru liðin yfir tuttugu ár og maðurinn eflaust löngu farinn annað allavegana bjó hann ekki lengur í blokkinni, ég athugaði.
Höfundur Rakel Guðbjörnsdóttir
foreldra- og uppeldisfræðingur
Tískubylgjur og uppeldi
Tíska hefur fylgt okkur mannfólkinu í gegnum ár og aldir. Hún kemur og fer eins og alda sem brotnar og dregst aftur saman í aðra öldu. Þessar öldur skella stundum saman og verða ein, eins og 80’s og pönk tímabilið og mynda þannig stærri öldu. Hverri tískubylgju mætti í raun lýsa sem ákveðnu hringrásarferli. Litadýrðin sem kom með 80’s tímabilinu, leðrið og gaddarnir sem komu með pönk tímabilinu, axlapúðarnir og ljósu strípurnar sem komu með 90’s tímabilinu og þannig mætti áfram telja. Hvert tímabil kemur og fer og jafnvel kemur aftur í sömu eða breyttri mynd.
Oft er persónuleiki tengdur við það hvernig fólk tjáir sig í gegnum fatnað og fólk flokkað sem ákveðnar staðalmyndir eða talið vera með ákveðin persónueinkenni út frá klæðnaði eða framkomu. Þegar við erum fljót að draga ályktanir út frá því sem við sjáum, erum við ekki með allar upplýsingar heldur eingöngu okkar eða fyrirfram ákveðnu skoðanir um hvernig við eða samfélagið túlkar þessa tilteknu „týpu“ af fólki. Þær fyrirfram ákveðnu skoðanir sem við höfum um uppeldi er ákveðinn grunnur sem hefur áhrif á það hvernig við bregðumst við börnunum okkar og hvaða stefnu við aðhyllumst eða aðhyllumst ekki í uppeldi. Eða bara hvaða skoðun við höfum á hlutverki okkar sem uppalanda. Viðhorf okkar, gildi og jafnvel væntingar endurspegla oft þau „samskiptaforrit“ sem byrjuðu að skrifast í kerfið okkar þegar foreldrar okkar voru börn, þegar við sjálf vorum börn. Þessi „forrit“ grundvallast í fyrri reynslu okkar í bland við þá félagslegu, tilfinningalegu og líffræðilegu eiginleika sem við hvert og eitt búum yfir og hefur djúp áhrif á okkur sem uppalendur. Hvernig uppeldi foreldra okkar og foreldra þeirra var háttað hafði áhrif á það uppeldi sem við fengum og hefur þannig áhrif á þau viðhorf sem við höfum til uppeldishlutverks okkar í dag.
Í uppeldi okkar barna byggjum við ofan á þeirri reynslu sem við höfum úr okkar æsku, lesum okkur til og lærum af öðrum og myndum okkar hugmyndir út frá því. Hvaðan við komum hefur mikið að segja um það hvernig við skilgreinum hlutverk okkar sem uppalendur. Það er þó ekki samasem merki á milli þess að hafa alist upp við uppbyggilegar eða ekki svo uppbyggilegar aðstæður og að við endurtökum það mynstur. Við þekkjum eflaust mörg til fólks sem býr ekki svo vel að hafa alist upp í öruggu umhverfi en hefur sett sér það markmið að gefa börnunum sínum það sem það sjálft skorti. Við erum öll ólík og er það mjög einstaklingsbundið hvernig við vinnum úr okkar reynslu.
Það að notast við fleiri en eitt tískuafbrigði sama hvort það sé fatnaður eða uppeldisaðferðir getur bara lúkkað ferlega vel í „réttum“ aðstæðum. Það er nefnilega alveg hægt að notast við aðferðir hegðunarmótunar á virðingarverðan hátt, vera nærgætinn, athugull og meðvitaður samhliða því að vinna með hegðunarmótun. Á sama hátt getur þú sett skýr mörk og fylgt þeim vel eftir þó að þú notir hugmyndir um virðingarríkt uppeldi. Þú þarft nefnilega ekki að vera á móti einu til að geta fílað annað. Þú hefur heimild til að taka úr það sem þér hentar og leyfi til að prófa þig áfram þar til þú finnur leið sem hentar þér við það verkefni sem þú stendur frammi fyrir. Þú getur leyft þér að beita orðavali þínu, til dæmis ef þér hugnast ekki að tala um „óæskilega hegðun“ þá getur þú talað um að barnið upplifi miklar tilfinningar í þessum ákveðnu aðstæðum eða barnið ræður ekki við aðstæður. Þú hefur heimild til að gera það án þess að útiloka heila stefnu út frá hugtaka- eða orðanotkun sem þú fílar ekki þegar markmiðið er það sama – að styðja barnið.
Við getum lofað þér því að eitthvað eitt virkar aldrei á öll aldurstímabil eða hefur sömu áhrif á öll börnin þín. Það er mikilvægt að við foreldrar/uppalendur gefum okkur leyfi til að endurskoða, læra og vaxa með börnunum okkar. Að við gefum okkur tíma til að skapa það rými sem við og börnin okkar þurfum til að finna tengingu okkar á milli, við okkur sjálf og leiðir til að vaxa sem einstaklingar og fjölskylda. Mætum hvort öðru af virðingu og gefum okkur pláss til að vaxa og dafna í samfélagi sem er sífellt að breytast og þróast.
Höfundur Rakel Guðbjörnsdóttir
foreldra- og uppeldisfræðingur
Höfundur: Hildur Inga foreldra- og uppeldisráðgjafi