Tískubylgjur og uppeldi
Tíska hefur fylgt okkur mannfólkinu í gegnum ár og aldir. Hún kemur og fer eins og alda sem brotnar og dregst aftur saman í aðra öldu. Þessar öldur skella stundum saman og verða ein, eins og 80’s og pönk tímabilið og mynda þannig stærri öldu. Hverri tískubylgju mætti í raun lýsa sem ákveðnu hringrásarferli. Litadýrðin sem kom með 80’s tímabilinu, leðrið og gaddarnir sem komu með pönk tímabilinu, axlapúðarnir og ljósu strípurnar sem komu með 90’s tímabilinu og þannig mætti áfram telja. Hvert tímabil kemur og fer og jafnvel kemur aftur í sömu eða breyttri mynd.
Oft er persónuleiki tengdur við það hvernig fólk tjáir sig í gegnum fatnað og fólk flokkað sem ákveðnar staðalmyndir eða talið vera með ákveðin persónueinkenni út frá klæðnaði eða framkomu. Þegar við erum fljót að draga ályktanir út frá því sem við sjáum, erum við ekki með allar upplýsingar heldur eingöngu okkar eða fyrirfram ákveðnu skoðanir um hvernig við eða samfélagið túlkar þessa tilteknu „týpu“ af fólki. Þær fyrirfram ákveðnu skoðanir sem við höfum um uppeldi er ákveðinn grunnur sem hefur áhrif á það hvernig við bregðumst við börnunum okkar og hvaða stefnu við aðhyllumst eða aðhyllumst ekki í uppeldi. Eða bara hvaða skoðun við höfum á hlutverki okkar sem uppalanda. Viðhorf okkar, gildi og jafnvel væntingar endurspegla oft þau „samskiptaforrit“ sem byrjuðu að skrifast í kerfið okkar þegar foreldrar okkar voru börn, þegar við sjálf vorum börn. Þessi „forrit“ grundvallast í fyrri reynslu okkar í bland við þá félagslegu, tilfinningalegu og líffræðilegu eiginleika sem við hvert og eitt búum yfir og hefur djúp áhrif á okkur sem uppalendur. Hvernig uppeldi foreldra okkar og foreldra þeirra var háttað hafði áhrif á það uppeldi sem við fengum og hefur þannig áhrif á þau viðhorf sem við höfum til uppeldishlutverks okkar í dag.
Í uppeldi okkar barna byggjum við ofan á þeirri reynslu sem við höfum úr okkar æsku, lesum okkur til og lærum af öðrum og myndum okkar hugmyndir út frá því. Hvaðan við komum hefur mikið að segja um það hvernig við skilgreinum hlutverk okkar sem uppalendur. Það er þó ekki samasem merki á milli þess að hafa alist upp við uppbyggilegar eða ekki svo uppbyggilegar aðstæður og að við endurtökum það mynstur. Við þekkjum eflaust mörg til fólks sem býr ekki svo vel að hafa alist upp í öruggu umhverfi en hefur sett sér það markmið að gefa börnunum sínum það sem það sjálft skorti. Við erum öll ólík og er það mjög einstaklingsbundið hvernig við vinnum úr okkar reynslu.
Það að notast við fleiri en eitt tískuafbrigði sama hvort það sé fatnaður eða uppeldisaðferðir getur bara lúkkað ferlega vel í „réttum“ aðstæðum. Það er nefnilega alveg hægt að notast við aðferðir hegðunarmótunar á virðingarverðan hátt, vera nærgætinn, athugull og meðvitaður samhliða því að vinna með hegðunarmótun. Á sama hátt getur þú sett skýr mörk og fylgt þeim vel eftir þó að þú notir hugmyndir um virðingarríkt uppeldi. Þú þarft nefnilega ekki að vera á móti einu til að geta fílað annað. Þú hefur heimild til að taka úr það sem þér hentar og leyfi til að prófa þig áfram þar til þú finnur leið sem hentar þér við það verkefni sem þú stendur frammi fyrir. Þú getur leyft þér að beita orðavali þínu, til dæmis ef þér hugnast ekki að tala um „óæskilega hegðun“ þá getur þú talað um að barnið upplifi miklar tilfinningar í þessum ákveðnu aðstæðum eða barnið ræður ekki við aðstæður. Þú hefur heimild til að gera það án þess að útiloka heila stefnu út frá hugtaka- eða orðanotkun sem þú fílar ekki þegar markmiðið er það sama – að styðja barnið.
Við getum lofað þér því að eitthvað eitt virkar aldrei á öll aldurstímabil eða hefur sömu áhrif á öll börnin þín. Það er mikilvægt að við foreldrar/uppalendur gefum okkur leyfi til að endurskoða, læra og vaxa með börnunum okkar. Að við gefum okkur tíma til að skapa það rými sem við og börnin okkar þurfum til að finna tengingu okkar á milli, við okkur sjálf og leiðir til að vaxa sem einstaklingar og fjölskylda. Mætum hvort öðru af virðingu og gefum okkur pláss til að vaxa og dafna í samfélagi sem er sífellt að breytast og þróast.
Höfundur Rakel Guðbjörnsdóttir
foreldra- og uppeldisfræðingur