Lær­dómur í hvers­dags­leikanum

Nokkrum dögum fyrir afmælisdag sonar míns kíkti maðurinn minn á veðurspána. Spáð var góðu veðri á afmælisdaginn svo við drifum okkur í að senda út boð í grillveislu sem halda átti á fallegu útisvæði í Kópavogi. Á afmælisdaginn settist ég svo undir stýri, feðgarnir voru í góðum fíling, voru að spjalla, enda mikið tilhlökkunarefni að eiga afmæli. Ég var hins vegar frekar utan við mig. Ég setti í bakkgír og steig varlega á bensíngjöfina. 

Heyrði bílinn öskra á mig „bíb bíb bíb“ en náði ekki að stoppa í tæka tíð og bakkaði á bíl nágranna míns. 

Viðbragðið mitt var að hugsa: „Bíddu, bíb hljóðið kom svo seint í bílnum að ég náði ekki að stoppa“. Með þessari hugsun var ég að afsala mér ábyrgð. Ég ákvað þó að spyrja feðgana hvort bíb hljóðið hefði komið seint eða hvort þetta hefðu verið sein viðbrögð hjá mér. Þeir svöruðu báðir að ég hefði verið sein að bregðast við. 

Viðbragð mannsins míns var rólegt: „Þetta getur alltaf komið fyrir“. 

Viðbragð sonar míns var að verja mig: „Þessi bíll átti ekki að vera þarna . . . hann er svo stór . . . mamma þetta er allt í lagi þetta var ekki þér að kenna“. 

Þarna var sonur minn að verja mig og vildi koma ábyrgðinni af mér. Ég náði að svara honum rólega: „Veistu, þetta var mér að kenna og það er allt í lagi“. Ég sýndi honum skilning og þakkaði fyrir að hann hafi viljað vernda mig. Sagði honum að þetta voru mín mistök og að ég tæki ábyrgðina. Í framhaldi hringdum við þau símtöl sem við þurftum og héldum svo áfram för okkar í afmælisveisluna. 

Áþessari stundu tókst mér að grípa kennslustund í hversdagsleikanum. Kennslustundin var mikilvægi þess að taka ábyrgð, þakka fyrir stuðninginn og vera fyrirmynd í því sem við getum. Ég gat ekki breytt því að ég keyrði á en ég gat verið fyrirmynd í því hvernig ég tókst á við það. 

Þar sem ég hef komið því í vana að skoða tilfinningaviðbrögð mín við aðstæðum, þá varð það til þess að ég náði að bregðast meðvitað við og gat nýtt þessa reynslu sem kennslustund. Þegar ég gaf mér svo tíma til að ígrunda viðbrögð mín og feðganna þá áttaði ég mig betur á því hversu svipuð varnarviðbrögð áttu sér stað hjá okkur mæðginunum. Tekst mér það alltaf? Alls ekki. En með því að skoða samskipti okkar og viðbrögð okkar við þeim aukum við skilning okkar á sjálfum okkur og þeirri sögu sem við komum með í uppeldishlutverkið. Það hjálpar okkur síðan að eiga fleiri augnablik þar sem við náum að grípa okkur í hversdagsleikanum og læra af reynslunni. 

Hver eru varnarviðbrögð þín og hvað getur þú gert til að vera meðvitaðri um þau? 

Höfundur Rakel Guðbjörnsdóttir
foreldra- og uppeldisfræðingur

usergift linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram